Saga Pólsins

Fyrirtækið Póllinn hf. á Ísafirði var stofnað 7. maí 1966. Stofnendur voru bræðurnir Óskar, Haukur og Ingólfur Eggertssynir ásamt Gunnari Steinþórssyni og Hans W. Haraldssyni. Óskar var ráðinn framkvæmdastjóri hins nýja fyrirtækis en hann hafði áður rekið raftækjavinnustofu á Ísafirði og var stofnun Pólsins liður í að færa út kvíarnar í þeirri starfsemi.


Keypt var gamalt tvílyft timburhús við Aðalstræti 9 ásamt stóru bakhúsi og bryggju, sem hafði staðið ónotað um árabil og þurfti mikilla lagfæringa við. Eigendurnir unnu sjálfir að því í kvöld- og helgarvinnu að koma húsinu í stand og innrétta fyrir fjölbreytta rafmagnsþjónustu. Á neðri hæð hússins var sett upp rafmagnsverkstæði og rúmgott geymsluhúsnæði en á efri hæðinni skrifstofa, radíóstofa o.fl.  Auk verkstæðis- og viðgerðarþjónustu voru seldar fjölbreyttar rafmagnsvörur og heimilistæki, m.a. sjónvörp sem allir vildu þá eignast með tilkomu Ríkissjónvarpsins sem hóf göngu sína haustið 1966. Einn eiganda fyrirtækisins kynnti sér sérstaklega viðgerðir og viðhald á sjónvarpstækjum til að fyrirtækið gæti annast þá þjónustu. Síðla árs 1968 var byrjað að innrétta rými á neðri hæð hússins undir verslun sem var opnuð þann 7. desember 1968 og verslunarstjóri ráðinn Kristjón Daníelsson. Voru starfsmenn fyrirtækisins þá tíu talsins, þar af unnu átta á verkstæðinu.


BLÓMLEGUR REKSTUR Á UPPGANGSTÍMUM
Póllinn naut góðs af þeim mikla uppgangi sem var í öllu atvinnulífi á Ísafirði á áttunda áratugnum með tilkomu skuttogaraflotans. Umsvif fyrirtækisins jukust á öllum sviðum og fjöldi starfsmanna margfaldaðist. Um leið varð rekstur fyrirtækisins sífellt margþættari. Húsnæðið varð fljótt of lítið og árið 1975 var nýtt steinsteypt hús byggt áfast því gamla á grunni bakhússins. Hýsti það alla viðgerðar- og framleiðslustarfsemi. Í ársbyrjun 1978 tók Ásgeir Erling Gunnarsson viðskiptafræðingur við fjármálum fyrirtækisins en Óskar annaðist áfram tæknilega hlið reksturins og verkstjórn. Starfsmenn voru þá að jafnaði 18 manns, þ.e. tíu rafvirkjar, þrír útvarpsvirkjar, tæknifræðingur, tveir  verslunarmenn og tveir á skrifstofu. Helstu verkefnin voru  raflagnavinna, viðgerðir á heimilistækjum og viðgerðir á vélum og tækjum fyrir skip og bíla.


FYRSTA RAFEINDAVOGIN
Árið 1976 urðu tímamót í rekstri Pólsins þegar fyrirtækið hellti sér af krafti út í hönnun, þróun og framleiðslu á rafeindabúnaði fyrir fiskiðnaðinn. Örn lngólfsson tæknifræðingur var þá ráðinn til starfa hjá fyrirtækinu en hann hafði áður lært þar rafvirkjun. Ingólfur Eggertsson, faðir Arnar, hafði frá árinu 1969 unnið að framleiðslu rafeindatækja sem hentuðu íslenskum sjávarútvegi betur en erlend framleiðsla. Fyrsta varan var spennustillir fyrir rafala í fiskiskip sem reyndist mjög vel og í framhaldinu var farið að framleiða fleiri hliðstæð tæki eins og ljósablikkara, hleðslutæki, tæki til lekaaðvörunar og álagsstýritæki.  Með komu Arnar inn í fyrirtækið komst meiri skriður á alla þróunarvinnu og stofnuð var sérstök hönnunar- og framleiðsludeild. Fyrsta verkefni Pólsins á hinu nýja sviði var smíði innviktunarvogar fyrir Hraðfrystihúsið Norðurtanga á Ísafirði. Vogin var tekin í notkun í byrjun júlí 1978 og var sú fyrsta sinnar tegundar á Íslandi.


HÖNNUN Á HEILDARLAUSNUM
Borðavog fyrir frystihús var þróuð á árunum 1978-1979 og þann 27. mars 1979 var gerður samstarfssamningur milli Pólsins og Hagræðingafélags frystihúsanna við Ísafjarðardjúp um hönnun og smíði tölvuvoga fyrir frystihús. Fékk fyrirtækið aðstöðu í húsunum til að prófa tækin og koma þeim af tilraunastigi yfir á framleiðslustig. Um var að ræða borðvogir, innviktunarvogir, flokkunarvélar o.fl. en um leið héldu tilraunir áfram með næstu nýjung, samvalsvélina, sem var hönnuð í samvinnu við Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna. Haustið 1980 fór hún í prófanir hjá Íshúsfélagi Ísfirðinga og framleiðsla á henni hófst 1981. Gat Póllinn innan tíðar boðið upp á heildarkerfi fyrir frystihús sem samanstóð af hráefnisvogum, borðavélum, flakaflokkunarvélum og samvalsvélum, lausn sem gerði stjórnendum kleift að safna saman og halda utan um ýmsar gagnlegar upplýsingar, t.d.  um nýtingu, auk þess sem kerfið reiknaði út bónus.


LEIÐANDI Í FRAMLEIÐSLU RAFEINDATÆKJA
Fram til þessa hafði framleiðslan einungis verið bundin við innanlandsmarkað en mönnum var ljóst að heilmikil tækifæri voru utan landsteinanna. Árið 1979 hófst útflutningur á tækjabúnaði þegar  nokkrar vogir voru seldar til Færeyja og framleiðslan jafnframt kynnt á sýningunni World Fishing sem haldin var um sumarið í Kaupamannahöfn. Í framhaldinu var farið á sjávarútvegssýningu í Þrándheimi og Boston. Viðtökur voru góðar og fyrirspurnir bárust víða að úr heiminum. Umsvifin jukust sífellt og sumarið 1983 opnaði fyrirtækið útibú að Skemmuvegi 22L í Kópavogi, sölu- og innflutningsdeild undir stjórn Birgis Úlfssonar. Útibúið skyldi sinna markaðssetningu á erlendum mörkuðum en jafnframt viðgerðarþjónustu á Suðurlandi og vestur að Akranesi.  Þetta ár var Póllinn hf. talinn framleiða um þriðjung allra rafeindatækja sem framleidd voru á Íslandi en tíu fyrirtæki stunduðu slíka framleiðslu. Í febrúar 1984 fékk fyrirtækið heiðursverðlaun Verðlaunasjóðs iðnarins en þá hafði fyrirtækið smíðað og framleitt um 500 tölvuvogir fyrir rúmlega 60 frystihús víða um land auk annars tæknibúnaðar til að auka nýtingu fiskafla. Tölvuvogir  frá fyrirtækinu höfðu jafnframt verið seldar til fyrirtækja í kjötvinnslu, lyfjaframleiðslu og víðar.  Starfsmenn voru  rúmlega 50 á Ísafirði og á höfuðborgarsvæðinu og um helmingur þeirra starfaði við framleiðslu á tæknibúnaði. Í ágúst 1984 gerði Póllinn hf. samning við fyrirtækið Micro Tools í Fitchburg, Massachusetts í Bandaríkjunum, um framleiðsluleyfi Micro Tools á vogum fyrir fiskiðnað er náði yfir alla Norður-Ameríku.


SKIPAVOGIN KEMUR Á MARKAÐ
Skömmu síðar kom enn ein tækninýjung fyrirtækisins á markað - tölvuvog fyrir fiskiskip sem gat viktað réttan þunga óháð hreyfingu skipa í úfnum sjó. Fyrsta vogin með þessum eiginleika var smíðuð við frumstæð skilyrði og prófuð um borð í Djúpbátnum Fagranesi á venjubundinni siglingu skipsins um Ísafjarðardjúp. Fyrsta alvöru þolraun uppfinningarinnar fór fram í ágústbyrjun 1985 um borð í bv. Sólrúnu sem var gerð út frá Bolungarvík. Sólrún var á rækjuveiðum og pakkaði og frysti aflann að mestu um borð. Vogin reyndist vel og stóðst fullkomlega þær kröfur sem gerðar voru til hennar. Röng viktun vegna halla og óstöðugs aflestrar vegna veltings hafði verið mikið vandamál en POLS-skipavogin viktaði með tveggja gramma nákvæmni hvernig sem skipið lét. Fáeinum árum síðar nákvæmnin orðin margfalt meiri eða 1/10 hluti úr grammi. Þann 23. ágúst 1985 var í fyrsta sinn sagt frá þessari nýjung í fjölmiðlum á Íslandi og vakti hún strax mikla athygli innan lands sem utan. Tíu árum síðar höfðu skipavogir verið seldar til meira en 30 landa um heim allan og voru einn af hornsteinunum í framleiðslu fyrirtækisins.


PÓLSTÆKNI STOFNAÐ
Á tuttugasta starfsári fyrirtæksins stóð reksturinn í miklum blóma en líka á ákveðnum tímamótum.  Um 800 POLS-vogir voru í 120 fyrirtækjum á Íslandi og fjöldi POLS-voga og tölvukerfa í Færeyjum, Noregi, Bretlandi og Bandaríkjunum. Erfitt var að anna eftirspurn og starfsemin hafði þegar sprengt utan af sér allt húsnæði við Aðalstræti 9. Brýnt var að komast í stærra húsnæði og ekki síður að fá fleira tæknimenntað fólk til starfa.


Innan stjórnar fyrirtækisins var mikið rætt um framtíð þess og þóttu hin miklu umsvif á sviði tölvubúnaðar ekki eiga samleið lengur með hefðbundinni rafmagnsþjónustu.  Ákveðið var að skilja þessa starfsemi að og í byrjun árs 1986 fóru  forráðamenn Pólsins á fund Félags íslenskra iðnrekenda og óskuðu eftir aðstoð við að skilja framleiðsludeildina frá fyrirtækinu og afla nýs hlutafjár fyrir hana. Á tuttugu ára afmæli Pólsins, þann 7. maí 1986, var nýtt fyrirtæki stofnað um framleiðsluna, Póls hf.  Stjórn hins nýja fyrirtækis skipuðu Björn Hermannsson, formaður, Ásthildur Ólafsdóttir og Örn Ingólfsson en framkvæmdastjóri  var Ásgeir Erling Gunnarsson.  Meginmarkmiðið með þessari breytingu var að skapa öflugra útflutningsfyrirtæki sem héldi áfram á þeim grundvelli sem Póllinn hf. var búinn að leggja varðandi vöruþróun og framleiðslu. Til þess þurfti að auka hlutafé verulega og í þeirri vinnu var annað fyrirtæki stofnað, Pólstækni hf. sem Póls hf. rann inn í. Hluthafar voru fjölmargir, t.d. starfsmenn Póls hf. og fleiri einstaklingar en stærsti  einstaki hluthafinn var Eimskipafélag Íslands með þriðjung hlutafjár og svo Hrönn hf. og Póllinn hf.  Leiðir Pólsins og Pólstækni skildu haustið 1986 þegar síðarnefnda fyrirtækið flutti í 1000 fm iðnaðarhúsnæði að Sindragötu 10 á Ísafirði.


AUKIN ÞJÓNUSTA VIÐ SKIP
Starfsemi Pólsins hf. var nú komin í svipað horf og hún hafði verið á fyrstu árum fyrirtækisins. Hún var vissulega umfangsmeiri en verkefnin að mörgu leyti þau sömu. Boðið var upp á alhliða rafþjónustu og raftækjasölu en skipaþjónusta var einnig ört vaxandi þáttur í starfseminni. Fyrirtækið bauð upp á alla þjónustu við rafkerfi skipa, rafvélar og sérhæfðan rafbúnað, rafeindaþjónustu fyrir hvers konar rafeindatæki og kælikerfaþjónustu fyrir bæði freon- og ammoníakkerfi. Þá var Póllinn hf. endursöluaðili fyrir öll helstu raftæki í skip, s.s. fiskleitartæki, siglingatæki, fjarskiptatæki, staðsetningartæki.  Á þessum árum voru að jafnaði í kringum 20 starfsmenn hjá Pólnum, flestir menntaðir í rafvirkjun eða öðrum skyldum greinum.


VERSLUNINNI LOKAÐ
Í mars árið 1993 var verslunin stækkuð og vöruúrvalið aukið en innan fárra ára var ljóst að sú fjárfesting myndi ekki standa undir sér. Stórar verslanablokkir með marga vöruflokka undir einu þaki gátu boðið viðskiptavinum sínum lægra verð en sérverslanir með sömu vörur. Póllinn hafði lagt metnað sinn í að bjóða Vestfirðingum upp á heimilistæki á sama verði og í Reykjavík en sífellt varð erfiðara að verja þessa hagsmuni. Lítil framlegð var af verslunarrekstrinum og sumarið 2001 var tekin ákvörðun um að versluninni yrði lokað og var síðasti opnunardagur föstudaginn 27. júlí. Áfram var hægt fá hvers kyns raflagnavörur hjá fyrirtækinu en aðkoma viðskiptavina var eftir þetta Pollgötumegin.


PÓLNUM SKIPT Í TVÖ FYRIRTÆKI
Þann 10. janúar 1997 urðu framkvæmdastjóraskipti hjá Pólnum hf. á Ísafirði þegar Sævar Óskarsson rafiðnfræðingur settist í stól föður síns, Óskars Eggertssonar. Sævar hafði starfað hjá Pólnum hf. frá árinu 1977, með hléum vegna náms. Breytingar á framkvæmdastjórn fyrirtækisins höfðu legið í loftinu um nokkurn tíma því Óskar hafði lýst því yfir að hann vildi láta af störfum sem framkvæmdastjóri en var tilbúinn að vinna á skrifstofunni enn um sinn. Nýr framkvæmdastjóri stóð frammi fyrir því verkefni að endurskipuleggja reksturinn í kjölfar þess að rekstrarumhverfið var gjörbreytt. Mikill samdráttur var í sjávarútvegi, blómaskeið skuttogara og stærri fiskiskipa á norðanverðum Vestfjörðum var á enda og stóru frystihúsin á Ísafirði, Norðurtanginn og Íshúsfélag Ísfirðinga, voru hætt starfsemi. Störfum fækkaði og fólk leitaði tækifæra annars staðar, aðallega á höfuðborgarsvæðinu. Ljóst var að ef Póllinn átti að eiga möguleika á að lifa af þessar breytingar þá þyrfti að hagræða í rekstri og aðlaga fyrirtækið að breyttum aðstæðum. Helsti vandinn var húsnæðið en það sagði sig sjálft að 1300 fm húsnæði fyrir átta manna fyrirtæki var afar óhagkvæmt. Reynt var að selja eignirnar til að létta á veðskuldum en án árangurs. Sumarið 2003 var tekin ákvörðun um að skipta fyrirtækinu upp í tvö fyrirtæki, annars vegar eignarhaldsfélagið Gamla kompaníið sem starfaði undir kennitölu gamla Pólsins og hins vegar Pólinn ehf. sem tók við rekstri gamla félagsins. Sævar keypti reksturinn og nafn fyrirtækisins en húseignirnar voru framvegis reknar af eignarhaldsfélaginu Gamla kompaníið, en það nafn hafði gamla húsið að Aðalstræti 9 borið á fyrri hluta 20. aldar.


FJARSKIPTAÞJÓNUSTAN
Þegar þessar breytingar voru um garð gengnar voru menn bjartsýnir á framhaldið og bundu vonir við að búið væri að tryggja rekstrargrundvöll fyrirtækisins. Verkefnastaðan var nokkuð góð en í meira mæli var nú leitað eftir verkefnum út fyrir svæðið þótt aðalstarfsvettvangurinn væri áfram norðanverðir Vestfirðir. Hefur rekstrarfyrirkomulag fyrirtækisins verið með nánast óbreyttum hætti frá þessum tíma og er í raun hið sama og lagt var upp með þegar fyrirtækið tók til starfa fyrir fimmtíu árum síðan, þ.e. alhliða rafþjónusta. Til viðbótar er fjarskiptaþjónusta sem bættist við starfsemina haustið 2007 þegar Póllinn varð umboðsaðili fyrir vörur og þjónustu Vodafone. Þrátt fyrir að tækninni hafi fleygt hraðar fram en nokkur hefði getað ímyndað sér árið 1966 þá eru verkefnin að mörgu leyti þau sömu og starfsmennirnir ganga að sömu störfum og forverar þeirra fyrir fimmtíu árum.


Helstu heimildir:
Vesturland 24.12.1968.
Ísfirðingur 15.12.1968
Ægir 01.09.1985.
Skutull 11.12.1968.
Morgunblaðið 31.maí 1978; 30. nóv. 1980; 21. júní 1985; 13. maí 1986; 11 des. 1986; 23 okt. 1986 og 16 jan. 1997.
Frjáls verslun 1. jan. 1978.
Tíminn 12. mars 1978; 14. jan. 1981; 11. febr. 1984; 21. maí 1986 og 24. mars 1993.
Sjómannablaðið Víkingur 1. mars 1983; 1. des. 1994 og 1. júní 1995.
Bæjarins besta 25. júlí 2001 http://www.bb.is/pages/79?NewsID=4583 
Bæjarins besta 6. júní 2003 http://www.bb.is/pages/79?NewsID=22539
Bæjarins besta 19. sept. 2003 http://www.bb.is/Pages/26?NewsID=26625

 

Guðfinna M. Hreiðarsdóttir sagnfræðingur tók saman árið 2016